Hvaða myndavél á ég að kaupa?
Þetta er spurning sem við höfum heyrt reglulega og við munum að reyna að svara henni eftir bestu getu til að spara þér (og ljósmyndara-vini þínum) tíma.
Það eru ekki allir tilbúnir að greiða fúlgu fjár fyrir alla þá möguleika sem atvinnuljósmyndarar hafa um að velja í sínum myndavélum og því framleiðir hvert vörumerki margar gerðir myndavéla sem hafa mismunandi notkunargildi í huga.
Markmiðið er að átta sig á því í hvaða tilgangi ljósmyndirnar eru teknar og hvaða vél hentar þeim tilgangi best.
- Hvaða eiginleika þarf myndavélin að hafa?
- Frá hvaða framleiðanda er best að kaupa?
- Hvað með linsur?
- Hvað má ljósmyndavélin kosta?
- Kaupa nýja eða notaða?
Hvaða eiginleika þarf myndavélin að hafa?
Í flestum tilvikum er verið að leita að myndavél í þeim tilgangi að taka myndir af fjölskyldu, vinum eða ferðalögum. Þeir einstaklingar eru yfirleitt í leit að myndavél sem hægt er að beina áfram og taka fallega mynd án þess að flækja hlutina. Í þeim tilfellum stilla eigendurnir vélina gjarnan á Auto og leyfa vélinni að sjá um allar stillingarnar fyrir sig. Það merkir að meirihlutinn af þeim möguleikum sem vélin hefur upp á að bjóða skiptir notandann litlu máli. Þessi flokkur myndavéla hentar einnig byrjendum sem vilja prófa sig áfram.
Dæmi slíkar vélar
Canon EOS: M100 / 400D / 2000D
Nikon: D3300
Sony: RX100II / A5100
Þeir sem sækjast í meiri myndgæði ættu að geta fundið sér myndavél við hæfi sem er í svokallaða “prosumer” myndavélaflokknum. Þær vélar henta “tækjaperrum” og þeim sem hafa náð góðri stjórn á ljósmyndavélinn. Það sem þessar vélar hafa fram yfir ódýrari vélarnar er til dæmis stærri myndflaga, meiri ljósnæmni, betra fókuskerfi, betri skjár, fleiri stillimöguleikar, o.s.fr.
Það eru vélar á borð við:
Canon EOS: 77D / 7D MKII
Nikon: D5500 / D7100
Sony: Alpha A7III
Ljósmyndavélarnar sem atvinnumenn (og konur) nota við sitt starf framkalla myndir sem hafa almennt nógu háa upplausn og mikla skerpu til að setja í prent og birtingar á stórum flötum. Þær vélar og fylgihlutir hennar eru yfirleitt með töluvert hærri verðmiða en hinn almenni áhugaljósmyndari kærir sig um að greiða fyrir. Sem færir okkur að næstu spurningu.
Frá hvaða framleiðanda er best að kaupa?
Að spyrja hvort Canon eða Nikon sé betri er eins og að spyrja hvort að Samsung eða Iphone sími sé betri. Hvorug varan er betri sem slík. Fólk er nefnilega misjafnt, hefur ólíkar þarfir og líkar einfaldlega betur við suma hluti en aðra. Best væri að prófa mismunandi vörumerki og meta hvað hentar þér best. Þá er um að gera að fara í verslun og fá að prófa vöruna áður en hún er keypt.
Hvað með linsur?
Dýrari ljósmyndavélar hafa yfirleitt möguleikann á því að hægt sé að skipta um linsur á þeim. Þeim mun betri sem linsan er, þeim mun skarpari og fallegri myndum er hægt að ná. Til eru tvennskonar gerðir af linsum, svokallaðar zoom linsur og svo fastar linsur. Fyrir byrjendur mælum við með því að nota zoom linsur.
Zoom linsur: Viðkomandi getur tekið bæði víðskot og nærskot með sömu linsunni frá þeim stað sem hann stendur á.
Fastar linsur: Viðkomandi þarf að skipta um linsu og til að ná víðari eða þrengri ljósmynd.
Hvað má myndavélin kosta?
Ákjósanlegast væri að leita að þeirri myndavél sem hentar best út frá þeim eiginleikum sem eru eftirsóttir. Ef búið er að ákveða hámarksverð fyrirfram væri gott að velja þá vél sem inniheldur mikilvægustu eiginleikana fyrir eigandann á því verðbili.
Kaupa nýtt eða notað?
Sumir kjósa að kaupa tækin sín glæný og því fylgir auðvitað öryggið um að tækin séu í 2 ára ábyrgð ásamt gleðinni að opna kassann í frysta skipti. En í lang flestum tilvikum má gera góð kaup á notuðum myndavélum og linsum, þá sérstaklega innanlands. Myndavélar falla hratt í verði og því er hægt að fá mikið fyrir peninginn. Notaðar linsur haldast almennt vel í verði og því er endursöluverðið á notaðri linsu yfirleitt svipað og þegar hún er keypt notuð. Þegar myndavél er keypt notuð skal óska eftir upplýsingum um hve oft hefur verið hleypt af lokaranum (þeir duga almennt frá 80-300 þúsund sinnum, en það fer eftir gæðum vélarinnar og lokarans).
Comments are closed.